top of page
  • Writer's pictureHans Júlíus Þórðarson

Gervigreindin tekur yfir

Updated: Aug 21, 2020Gervigreind hefur trónað ofarlega nokkur undanfarin ár á öllum listum yfir tækni sem muni gerbreyta starfsháttum og viðskiptaumhverfi fyrirtækja í nálægri framtíð. Ævintýralegir spádómar hafa verið settir fram um möguleika gervigreindar og hvernig hún muni umbylta heilu fagstéttunum, gera mörg störf úrelt en einnig skapa önnur ný.


Markaðsrannsóknafyrirtækið Gartner telur að 80% allrar tækni muni byggja á gervigreind með einum eða öðrum hætti þegar árið 2021. Það er bratt en kannski ekki fjarri lagi.


Markaðmálin eru engin undantekning þar, þvert á móti. Samkvæmt McKinsey mun velta sem tengist gervigreind með einum eða öðrum hætti, í gegnum markaðs- og sölustarf fyrirtækja, nema 2.6 þúsund milljörðum dala (!) í næstu framtíð. Þetta eru yfirgengilegar upphæðir, ef réttar reynast.

En markaðsfólk hefur þegar tekið gervigreind í notkun með ýmsum hætti, þótt sumir geri sér ekki endilega grein fyrir því. Hún hefur einfaldlega fylgt gríðarhraðri þróun markaðstæknilausna sem fyrirtæki hafa tekið í notkun.


Í dag er gervigreind til dæmis notuð til að framkvæma reglubundin leitunarbestunarverkefni eins og að lagfæra tvítekningu á efni, besta með sjálfvirkjum hætti framsetningu vefsíðna að leitarniðurstöðum á snjallsímum og til að aðstoða við að skilgreina lykilorð og -frasa sem lið í útfærslu leitarvélabestunar.


AI 2020

Hér eru fjögur atriði sem markaðsfólk ætti að gaumgæfa varðandi gervigreind árið 2020:


Efnismarkaðssetning

Markaðsfólk á sviði efnismarkaðssetningar (e. content marketing) verður að huga að möguleikum gervigreindartækninnar strax á þessu ári. Enn er reyndar ekki komið að því að gervigreindarforrit geti skrifað vönduð blogg, greinar, hvítbækur (e. white papers) eða tekið vitræn viðtöl, en tæknin getur straumlínulagað og einfaldað alls kyns ferli í markaðssetningunni.


Gervigreind getur til dæmis nýst til að uppfæra með sjálfvirkum hætti einfalt efni á samfélagsmiðlum, netauglýsingar og fyrirsagnir tölvupósta. Mörg fyrirtæki nota gervigreind þegar til að koma auga á göt í efnisúrvali á vefjum sínum og til að greina bestunarmöguleika á leitarvélum. Þessi þróun heldur áfram 2020.


Tæknin býður einnig spennandi möguleika til textanáms (e. text mining) til að koma auga á lykilfrasa, orð og aðrar breytur í efnisframleiðslu sem stuðla að meiri umferð og fjölgun heimsókna.


Þegar gervigreindin hefur greint tengsl milli umfjöllunarefnis og umferðar er markaðsfólk í betri stöðu til að skilgreina stefnu og aðgerðaráætlun sem nýtir sér slíkar niðurstöður.


Fyrirtæki sem taka ekki ákveðin skref á þessu ári til að nýta sér möguleika gervigreindar í efnisframleiðslu verða fljótt undir í samkeppninni.


Persónusniðin upplifun

Nýjar tölur í úttekt SalesForce sína að 64% neytenda búast við persónusniðinni upplifun sem byggir á fyrri viðskiptum og samskiptum við viðkomandi vörumerki. Gervigreindin auðveldar þessa úrvinnslu stórkostlega í dag.


Með tækninni er mögulegt að greina á hvaða stigi viðskiptavinurinn er staddur í kaupferli sínu (e. customer / buyer's journey) og miðla efni til hans sem hæfir sérstaklega því stigi, sem eykur líkur á því að hann færist áfram á leið sinni til fyrstu (eða áframhaldandi) viðskipta.


CRM kerfi hafa þróast mikið að þessu leyti undanfarin misseri (SalesForce er gott dæmi). Gervigreind er þegar mikið notuð í markaðssjálfvirkni (e. marketing automization), ekki síst með persónusniðnum tölvupóstum sem byggir á greiningu gagna í CRM kerfum.


Með sífellt ítarlegri og betri gögnum um núverandi og mögulega viðskiptavini mun notkun gervigreindar stöðugt aukast í sjálfvirkum markaðsaðgerðum.


Leitarvélabestun í breyttum heimi

Markaðsfólki verður mikill fengur í aukinni sjálfvirknivæðingu tímafrekrar vinnu við leitarvélabestun þökk sé gervigreindinni. Nýjar tæknilausnir bjóða möguleika á að sameina gagnabanka og markaðstæki, greina í rauntíma breytingar í virkni leitarorða og hámarka árangur efnisframleiðslu í samræmi við það.


Gervigreindin mun því styðja við sérfræðinga í leitarvélabestun stað þess að gera störf þeirra úrelt, en þau munu örugglega breytast mikið og hratt.


Gervigreind verður ekki lengur gervigreind

Markaðsfólk í smærri fyrirtækjum er skiljanlega oft hikandi við að að hella sér út í gervigreindartækni þar sem það óttast að fræðsla og þjálfun í beitingu hennar muni aðeins bætast við aðra vinnu og flækja verkefnin í stað þess að létta þau. Ótti við nýjar aðferðir og tækni er ekki nýr í sögunni.


Eftir því sem gervigreindin þróast áfram verður auðveldara að nálgast tæknina og notendaviðmót batnar. Árið 2020 verða stór stökk tekin á þessu sviði. Bestu gervigreindarverkfærin munu laga sig að þörfum og verklagi markaðsmannsins.


Ógrynni af háþróuðum markaðstólum líta stöðugt dagsins ljós og samkeppnin tryggir stöðuga þróun í átt að þægilegra og notendavænna viðmóti (sjá til dæmis hér). Kerfin verða svo einföld og sjálfsögð að hætt verður að hugsa um tæknina sérstaklega sem gervigreind:


Um leið og gervigreindin virkar eins og hún á að virka talar enginn um gervigreind lengur.


Í dag vinnur gervigreindin aðallega með því að safna gögnum og veita innsýn sem markaðssérfræðingar þurfa svo að vinna úr, en í framtíðinni munu þessi verkfæri leggja fram beinar tillögur að úrbótum og lausnum.


Þróuð Pay Per Click gervigreindartól geta sum þegar í dag greint hvernig tiltekin netauglýsing stendur sig, lagt fram tillögur um hvernig megi minnka birtingakostnað og reitt fram hlaðborð af lausnum sem markaðsmaðurinn getur valið úr, beint úr mælaborði sínu.


Um leið og gervigreindin virkar eins og hún á að virka talar enginn um gervigreind lengur.

Hvernig er best að byrja?

Mikilvægt er að öðlast grunnskilning á tækninni. Það þarf ekki meistarapróf í verk- eða tölvunarfræði til að átta sig á möguleikum gervigreindarinnar, en mikilvægt er að skilja hvernig hún er hratt að breyta flestum geirum og störfum, ekki síst innan markaðsgeirans. Hér er listi yfir grunnhugtök gervigreindar sem gott er að kynna sér.


Gagnlegt getur verið að kynna sér reynslusögur af fyrirtækjum sem hafa þegar innleitt gervigreind í starfsemi sinni. Þannig er hægt að spegla eigin áskoranir og skilja hvernig tæknin getur létt undir í daglegum og tímafrekum verkefnum.


Óþolinmæði, óhlýðni og fikt er vanmetinn drifkraftur framþróunar. Fjölmörg fyrirtæki bjóða gervigreindarlausnir sem hægt er að prófa endurgjaldslaust, annaðhvort tímabundið eða án skilyrða. Gervigreindarlausnir Google er ágætur staður til að byrja á - og þær eru ókeypis!156 views0 comments

Recent Posts

See All

コメント


bottom of page