Af hverju ættir þú að nota vídeó á LinkedIn?
Það eru nokkrar ástæður til að gera það og ég ætla fjalla um 5 slíkar hér, en aðalástæðan er sú að við erum með fullan sal af áhorfendum - en sviðið er tómt.
Staðreyndin er sú að vídeó er langöflugasta efnisformatið sem hægt er að nota, en það getur verið erfitt að taka skrefið og ýmsar hindranir í veginum, sálfræðilegar sem tæknilegar.
En um hvað er fyrsta vídeóið mitt? Jú, það er auðvitað um vídeó, nánar tiltekið 5 góðar ástæður til að nota vídeó í B2B markaðsstarfi, sérstaklega á LinkedIn.
Nr. 1. Heilinn elskar vídeó
Við erum sjónrænar skepnur. Heilinn okkar laðast náttúrlega að myndefni, sérstaklega hreyfimyndum, og hann er alveg einstaklega heillaður af hreyfimyndum af fólki og andlitum.
Heilinn flokkar og vinnur úr myndefni 60 þúsund sinnum hraðar en skrifuðu efni. Þannig að við erum einfaldlega harðvíruð til að horfa á vídeó.
Og hér eru fleiri tölur:
90% af þeim upplýsingum sem heilinn vinnur eru sjónrænar
40% af taugaþráðum sem liggja til heilans eru frá augunum - það er bókstaflega hraðbraut af upplýsingum frá auga til heila.
Þetta skilar sér til dæmis í því að við munum 80% af upplýsingum sem við sjáum, 20% af því sem við lesum og 10% af því sem við heyrum.
Nr. 2. Vídeó tengja við tilfinningar okkar
Sjónrænt minni er geymt í miðlæga gagnaugablaðinu - líkt og úrvinnsla tilfinninga. Og það auðveldar myndefni bókstaflega að hitta á viðkvæma taugar.
Maðurinn er félagsvera og vill vera í tilfinningalegum samskiptum við annað fólk og umhverfi sitt og vídeó kemst næst þeirri upplifun að vera í beinum samskiptum eða fá upplýsingar frá raunverulegri manneskju.
Vídeó er líka áhrifaríkasta leiðin til að segja sögur, sem er sömuleiðis mjög öflug leið til að ná sambandi við fólk, halda athygli og sitja eftir í minni fólks.
Nr. 3. Sniðið fyrir samfélagsmiðla
Vídeó er það efni sem er langmest deilt á samfélagsmiðlum, af þeim ástæðum sem ég nefndi áður.
Vídeóum er til dæmis deilt 12 sinnum meira en texta og tenglapóstum samanlagt og 6 af 10 horfa frekar á vídeó á samfélagsmiðlum en hefðbundið sjónvarpsefni.
Reiknirit samfélagsmiðlanna ýkja svo enn frekar áhrif vídeóa með því hygla sérstaklega slíku efni. Þannig að ekkert annað efni á álíka möguleika á því að fara á flug og verða “viral”.
Nr. 4. Leitarvélar elska vídeó
Þú þarft ekki að elska vídeó til að þau virki, það er aukaatriði, því leitarvélar elska vídeó.
Það er mikilvægt að hafa vandað, skrifað efni fyrir flest fyrirtæki, sérstaklega í B2B, en staðreyndin er sú að stór hluti af skrifuðu efni á vefsíðum er aldrei lesið, því miður. Fjórum sinnum fleiri neytendur vilja frekar horfa á vídeó um vöru en að lesa um hana.
Leitarvélar flokka vídeó - og skrifað efni sem inniheldur vídeó - sem eftirsóknarvert hágæðaefni og raða slíku efni ofarlega í niðurstöður.
Og þegar vídeó er styrkt enn frekar með strategískum leitarorðum í titlum, lýsingu og millifyrirsögnum erum við með mjög sterkt markaðsvopn í höndunum.
Nr. 5. Það veitir samkeppnisforskot
Ástæða þess að ég hef sjálfur ekki búið til vídeó fyrr en núna er sú sama og stoppar flesta aðra sem eru að búa til efni en ættu að nota vídeó: Þetta er dálítið vesen. Að minnsta kosti að gera það vel.
Það er smá hjallur sem þarf að komast yfir, bæði tæknilega hvað varðar lýsingu, hljóð, og myndvinnslu en líka bara atriði eins og að tala við myndavél - og vera ekki of alvarlegur og stífur; sem og vera sjálfbjarga í tækninni, þannig að þetta sé ekki heljarinnar framkvæmd í hvert skipti.
Og af því allir vilja vera svo "professional" á LinkedIn og kannski viðkvæmir fyrir sjálfum sér, eru ekki margir að setja inn efni á LinkedIn og örfáir að birta vídeó, þrátt fyrir áhrifamátt þeirra.
Svo að sviðið er bara tómt. Þannig séð.
Og sá sem getur boðið eitthvað sem hefur virði á markaði sem er erfitt að leika eftir hefur samkeppnisforskot.
En vídeó eins þetta sem hér fylgir er frekar einfalt að útbúa og getur styrkt verulega aðrar aðgerðir og efni sem þú vilt koma á framfæri, hvort sem þú ert að vinna sóló eins og ég eða starfar til dæmis sem vörustjóri eða frumkvöðull.
Samantekt
Vídeó er langsterkasta efni sem hægt er að nota, margfalt öflugra en skrifað efni. Við löðumst mjög sterkt að vídeóum frá náttúrunnar hendi enda snýr stór hluti af vinnslu heilans um vinnslu myndrænna upplýsinga.
Vídeó eru sniðin fyrir samfélagsmiðla enda auðvelt að deila áfram og leitarvélar elska þau líka, sem mælir með því að þau séu notuð til að styrkja annað efni, eins og hér er gert í þessari grein.
ความคิดเห็น